Hverjir geta orðið vinaliðar

Vinaliðaverkefnið er fyrir alla

Að jafnaði er valinn einn Vinaliði fyrir hverja fimm nemendur. Þannig má geta sér til þess að einungis um 20% nemenda bekkjarins verði Vinaliðar fyrsta tímabilið. Skólaárinu er skipt í tvö tímabil þannig að á einu skólaári getur um 40% nemenda í árgangi tekið að sér Vinaliðastarfið.

Það geta allir orðið Vinaliðar en það geta ekki allir orðið Vinaliðar strax í dag. Nemendur sem eiga í neikvæðum samskiptum við skólafélaga sína geta ekki orðið Vinaliðar í dag. Nemandi sem til dæmis skilur útundan, ranghvolfir augunum þegar einhver ákveðinn bekkjarfélagi tekur til máls eða er með neikvæðar athugasemdir við skólafélaga sína hefur ekkert í Vinaliðastarfið að gera í dag. Þessi nemandi getur samt tekið sig á og bætt hegðun sína og valist í starfið síðar. Það er alls ekki útilokað og það eru fjölmörg dæmi sem sýna að nemendur bæta hegðun sína gagngert til að fá starfið. Í raun er það, að sýna nemendum fram á kosti þess að eiga jákvæð samskipti, eitt af markmiðum verkefnisins.

Skólar sem taka upp Vinaliðaverkefnið skuldbinda sig til þriggja ára og á þremur árum veljast 6 „sett“ af Vinaliðum. Ástæða þess að við gerum þriggja ára samninga er ekki síst til þess að gefa öllum, sem á annað borð kæra sig um, eða leggja sig fram, kost á því að taka að sér starfið. En auðvitað er von okkar sú að skólar geri nýjan samning að þremur árum liðnum svo að öll börn fái að njóta verkefnisins.

Boðið er upp á Vinaliðastarfið á öllum stigum grunnskólans en það er undir skólum komið hvernig þeir vilja haga verkefninu í sínum skóla. Í Árskóla á Sauðárkróki, sem er móðurskóli verkefnisins á Íslandi, er starfað á öllum skólastigum með misjöfnum hætti. Þar tilnefna nemendur í 3. og 4. bekk Vinaliða úr röðum bekkjarfélaga sinna. Þeir stýra svo leikjum fyrir alla nemendur á yngsta stigi. Nemendur í fyrsta og öðrum bekk eru hvattir til að nýta sér leikina en það veljast ekki Vinaliðar úr þeim bekkjum.

Á miðstigi veljast Vinaliðar úr öllum bekkjum (5.-7. bekk.)

Nemendur á unglingastigi sækja um starfið og skila inn skriflegri umsókn þar sem þeir taka fram af hverju þeir sækjast eftir starfinu. Umsjónarkennarar og verkefnastjórar fara yfir umsóknirnar og ráða í starfið.

Í tilnefningaferlinu sem fram fer á yngsta og miðstigi fara verkefnastjóri og umsjónarkennarar yfir niðurstöðurnar úr hverjum bekk fyrir sig, í lok dags þegar nemendur eru farnir heim. Verkefnastjóri og umsjónarkennari mega eiga við niðurstöðurnar að einhverju leyti. Veljist nemandi í starfið sem hefur neikvæðar vinsældir í bekknum, ber umsjónarkennara og verkefnastjóra að láta annan nemanda taka þá stöðu. Það þarf ekki að tilkynna nemendum að þurft hafi að eiga við niðurstöður. Það þarf heldur ekki að taka inn nemanda sem er næstur á lista. Tilnefningar nemenda eru hafðar til hliðsjónar en ef kennari vill koma einhverjum í starfið til að styrkja félagslega stöðu, verðlauna hann fyrir bætta hegðun eða annað, þá er það frjálst. Það er aldrei ákvörðun eins aðila þegar breyta þarf niðurstöðum nemenda. Við höfum þennan kost einnig til að ,,hvíla” nemendur sem veljast aftur og aftur í starfið og til að koma þeim í það sem hafa getuna til, en hafa ekki fengið atkvæði til þess.

Vinaliði getur valist aftur í starfið.

Þó að nemandi hafi gegnt stöðu Vinaliða áður þá getur hann tekið starfð að sér aftur, jafnvel starfað tvö tímabil í röð. Það er því allt í lagi að láta 1-2 nemendur í bekk fá hlutverkið aftur ef verkefnastjóri og umsjónarkennari telja að um mikinn samskiptavanda sé við að etja hjá stórum hluta bekkjarins. Við mælum samt með því að umsjónarkennarar og verkefnastjórar reyni að skipta starfinu með bekknum eins og auðið er. Við leggjum samt ríka áherslu á það að nemandi sem á í neikvæðum samskiptum og hefur ekki gert neitt til að taka sig á, getur ekki fengið starfið.

Það geta allir orðið Vinaliðar.

Nemendur sem glíma við þroskafrávik og/eða raskanir af einhverjum toga, geta og hafa starfað sem Vinaliðar. Það þarf vissulega oft meira utanumhald og aukinn stuðning við þá nemendur en þeir geta gegnt hlutverkinu eins og aðrir. Það er lykilatriði að nemendur átti sig á að Vinaliðar geta haft misjafnan „ramma“ í kringum sig í starfinu. Þannig höfum við farið þá leið að velja nemendur sem eru, t.d. með ADHD seint á miðstiginu (t.d. í 7. bekk). Með auknum þroska nemenda skilja þeir e.t.v. betur af hverju sumum börnum í starfinu leyfist stundum eitthvað sem öðrum leyfist ekki, t.d. að mæta ekki á stöðina sína, hlaupast undan eða annað.

Leiðtogahæfni.

Nemendur eru ólíkir og sumir hafa þróað með sér mjög mikla leiðtogahæfni snemma á ævinni en öðrum finnst best að láta lítið fyrir sér fara. Verkefnastjóri þarf að horfa á „Vinaliðahópinn“ sinn og nálgast hvert barn með misjöfnum hætti. Við viljum stuðla að bættri leiðtogahæfni barna og við viljum passa að nemendur þróist í þá átt að þeir verði jákvæðir leiðtogar en ekki neikvæðir leiðtogar. Við viljum styrkja sjálfsmynd nemenda og efla hlédræg börn.

Oft starfa nemendur með litla leiðtogahæfni og frumkvæði sem Vinaliðar. Verkefnastjóri þarf að byggja undir og hjálpa þeim nemendum án þess að taka af þeim völdin. Við látum ólík börn vinna saman, við ræðum um verkstjórn og vinnulag og við veitum Vinaliðum þann stuðning sem þeir þurfa í starfinu án þess að taka fram fyrir hendurnar á þeim.

Vinaliðaverkefnið er fyrir alla!

Það er mjög þroskandi og eflandi fyrir nemendur að taka að sér Vinaliðastarfið og það er okkar von að sem flest grunnskólabörn fái tækifæri til að taka að sér hlutverkið. Við skulum hafa það hugfast að Vinaliðaverkefnið er fyrir alla. Verkefnið er til þess að efla þátttöku nemenda á skólalóð með því að bjóða alla velkomna í leik og að veita öllum nemendum þá tilfinningu að það sé óskað eftir þeim í leiki. Vinaliðaverkefnið er til að stuðla að bættum skólabrag og til að bæta samskipti nemenda.

Vinaliðaverkefnið er ekki fyrir fá „útvalin“ börn, Vinaliðaverkefnið er fyrir alla!