VINALIÐAR

Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna en Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli verkefnisins á Íslandi og sér um innleiðingu þess.

Vinaliðaverkefnið á að hvetja til meiri þátttöku í uppbyggilegri afþreyingu í frímínútunum og skapa betri anda innan skólans. Ásamt því að sporna við einelti.

Vinaliðar

Nemendur í 3. til 7. bekk (misjafnt eftir skólum) velja einstaklinga úr sínum bekk til þess að vera Vinaliðar. Hlutverk Vinaliða er að hafa umsjón með leikjum og afþreyingu í löngu frímínútum. Vinaliðar úr öllum bekkjum hittast á tveggja vikna fresti ásamt verkefnastjórum og setja saman leikjadagskrá til tveggja vikna. Hver Vinaliði er á ,,vakt” tvisvar sinnum í viku. Vinaliðar sjá um að setja upp leikjastöð og koma leikjum af stað í löngu frímínútum.

Allir eru velkomnir á leikjastöðina að taka þátt í leiknum.

Ef Vinaliðar sjá einhverja sem eru einir á skólalóðinni þá fara þeir til þeirra og bjóða þeim að vera með í leik. Þegar að frímínúturnar eru búnar þá ganga Vinaliðar frá leikjastöðinni.

Vinaliðar fá að fara 5 mínútum fyrr út úr tíma þegar þeir eiga að vera með leikjastöð og koma 5 mínútur seinna inn þegar þeir eru búnir að ganga frá.

Vinaliðar starfa 2 sinnum í viku frá september - desember eða janúar - maí.

 

Val á vinaliðum

Val á vinaliðum fer fram í kennslustund, þar er verkefnið kynnt og börnin eru beðin um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera góðir við aðra og bera virðingu fyrir öllum nemendum.

Um 5 % nemenda eru valdir til þess að sinna starfi vinaliða á tímabilinu sem þeir starfa. Allir nemendur ættu að fá tækifæri til að vera vinaliðar á þriggja ára tímabili.

Nemandi sem hefur sýnt af sér slæma hegðun og er vondur við aðra getur verið tilnefndur, en kennarar og verkefnastjórar geta talið hann vanhæfan til að gegna vinaliðastarfinu á þessum tímapunkti. Til dæmis ef hann er gerandi í eineltismálum, hann er þekktur fyrir að útiloka aðra nemendur eða er á annan hátt talinn umgangast aðra af virðingarleysi. Ef vafi leikur á heilindum nemandans er starfi hans sem Vinaliða frestað til næsta tímabils. Kennarar og verkefnastjórar útskýra þá fyrir viðkomandi einstakling afhverju hann geti ekki verið Vinaliði að svo stöddu og gera með honum samning að ef hann sýni fram á bætta hegðun þá fái hann tækifæri á að vera vinaliði. Fjölmörg dæmi eru um það að börn sýni fram á bætta hegðun og vinni sér inn að vera Vinaliðar.

Mörg dæmi eru um að börn með hegðunarvandamál verði mjög góðir Vinaliðar, taka hlutverkinu alvarlega, sinna starfinu vel eru ábyrgir og góðir við aðra.

 

Það er von okkar og trú að þegar frímínúturnar verða skemmtilegri og markvissari muni upplifunin af skóladeginum í heild sinni verða jákvæðari og gleðilegri. Markmiðið er að allir nemendur skólans hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga.

 

Markmið Vinaliðaverkefnisins

Jákvæðni og vellíðan

  • Aðalmarkmið Vinaliðaverkefnisins er að vinna gegn einelti með því að bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóðinni í frímínútum.
  • Hreyfing nemenda eykst ef fjölbreytt úrval leikja er á skólalóðinni, færri eru alveg óvirkir.
  • Við viljum að öllum nemendum líði vel í sínum skóla og taki þátt með jákvæðni í að gera skólann sinn enn betri en hann er.
  • Nemendur sem takast á við hlutverk Vinaliða fá frábæra leiðtogaþjálfun í gegnum hlutverkið.

 

Hlutverk Vinaliða

Vinaliði á að:

  • vera góður við aðra.
  • mæta á vinaliðafundi á tveggja vikna fresti og setja saman leikjadagskrá fyrir tvær vikur ásamt öðrum Vinaliðum og verkefnastjóra.
  • setja upp, taka þátt í og aðstoða við afþreyingu í frímínútunum.
  • sýna öðrum nemendum sérstaka athygli sem og þeim sem eru einir í frímínútunum.
  • láta vita af því ef hann heldur að nemendum í skólanum leiðist, séu einmana eða ef hann verður vitni að einelti og útilokun eða öðru sem getur valdið vanlíðan nemenda.
  • fara á leikjanámskeið sem stendur yfir í um 3 klukkustundir. Þar eru kenndkir nýjir leikir og farið yfir það hvernig Vinaliðar eiga að starfa og hvernig hægt er að hvetja aðra í leik.
  • fá stuðning og leiðsögn frá umsjónarmanni Vinaliðaverkefnisins í skólanum.

 

Leiðtogaþjálfun

Vinaliðar eflast í leiðtogahlutverki sínu því:

  • Vinaliði fer á fundi reglulega og lærir hvernig á að vinna skipulag næstu tveggja vikna.
  • Vinaliði ákveður hvað leiki skal hafa í frímínútum.
  • Vinaliði stjórnar leik á skólalóðinni með stuðningi fullorðinna gæsluaðila.
  • Vinaliði þarf að tala fyrir framan aðra krakka og útskýra leiki.
  • Vinaliði lærir að meta ástandið á skólalóðinni og fær að hafa áhrif þar til góðs.

 

Samdir hafa verið vinaliðadansar til að auka hreyfingu og samveru.  Hér eru tenglar á nokkra þeirra.

https://www.youtube.com/watch?v=SnHKjJ786NI

https://www.youtube.com/watch?v=jTCVBRi1Po4

https://www.youtube.com/watch?v=CuOhNyE_Oko

https://www.youtube.com/watch?v=Dz2TCV1P-R4

https://www.youtube.com/watch?v=fvEl36AHl2Q